Þriðja og síðasta umræða er að hefjast á Alþingi um Icesace-frumvarpið svonefnda en það gerir ráð fyrir því að fjármálaráðherra sé heimilt að staðfesta samninga við Breta og Hollendinga sem voru áritaðir í London 8. desember í fyrra.
Áður en umræðan hófst fór fram atkvæðagreiðsla um afbrigði frá þingsköpum svo leggja mætti fram breytingartillögu frá sex þingmönnum Hreyfingarinnar og Framsóknarflokks um að. Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, sagðist telja að tillagan færi í bága við stjórnskipun landsins enda gerði hún ráð fyrir því að ákvæði stjórnarskrár um synjunarvald forsetans væri sett inn í lögin.
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og fleiri stjórnarandstöðuþingmenn, vildu að forseti þingsins úrskurðaði hvort breytingartillagan væri þingtæk en Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, sagði að það væri þingsins að ákveða það.
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að verið væri að keyra málið áfram með miklum hraða vegna þess að það væru að safnast undirskriftir um þjóðaratkvæðagreiðslu. Meirihlutanum væri mikið í mun að klára málið hratt.
Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sem er meðal flutningsmanna breytingartillögunnar, greiddi atkvæði gegn því að afbrigði væru veitt en tillagan var samþykkt með 43 atkvæðum gegn atkvæði Margrétar.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, óskaði eftir því að ræðutími í umræðunni yrði lengdur en við því varð Ásta Ragnheiður ekki. Þingmenn Framsóknarflokksins gagnrýndu þetta harðlega og á endanum var þingfundi frestað í nokkrar mínútur svo hægt væri að funda um málið.