„Við mótmælum harðlega forgangsröðun Reykjavíkurborgar og krefjumst þess að það verði alfarið horfið frá niðurskurði á kennslumagni og skerðingu á gæslu á skólatíma og á öðrum sviðum sem ógna menntun og velferð barna. Við krefjumst þess að farið sé að grunnskólalögum.“
Svo segir í ályktuninni Verjum börnin - Rautt spjald á niðurskurð sem SAMFOK, samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík, og formenn foreldrafélaga samþykktu á hitafundi í gærkvöldi.
„Það er mikill hiti í foreldrum, allt á suðupunkti. Okkur finnst að síðustu dagar hafi farið mikið í samrekstrar- og sameiningarhugmyndir en það sem er grafalvarlegt í stöðu grunnskólanna er þessi beini niðurskurður á kennslumagni,“ segir Guðrún Valdimarsdóttir, formaður SAMFOK.