Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi fullyrðir að Kópavogsbær hafi verið látinn greiða fyrir kynningarefni í kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins árið 2006. Hann bendir því til sönnunar á reikning sem bærinn greidd að upphæð 187.750 kr.
Hafsteinn Karlsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi, ritaði grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann fullyrðir að bæjarsjóður hafi greitt kostnað sem tengist kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins árið 2006. Í greininni er hann að bregðast við áskorun formanns Sjálfstæðisflokks Kópavogs sem hvatti Hafstein til að rökstyðja ásakanir í garð flokksins.
Kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins þetta ár var háð undir slagorðinu „Það besta fyrir Kópavog“. Í skjalasafni Kópavogs er að finna glærusýningu sem ber þetta sama nafn. Í henni er talað um „kosningastefnuskrá okkar“ og einnig er talað um „framkomu Samfylkingarinnar“.
Glærusýningin var unnin af fyrirtækinu Frjáls miðlun ehf. og fyrir verkefnið greiddi bærinn 185.750 kr. Glærusýningin er samtals 50 síður. Fréttavefur mbl.is óskaði eftir því við Kópavogsbæ að sjá þetta skjal og var orðið við því.