Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra telur ekki ástæðu til þess að frumvarp um Icesave fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann hafnar því líka að málið hafi farið á einhverri hraðferð í gegn um þingið.
Steingrímur sagði þetta eftir ríkisstjórnarfund í morgun, en eftir hádegið hefst þriðja umræða um Icesave-málið. Steingrímur sagðist ekki sjá ástæðu til þess að senda þetta mál í almenna atkvæðagreiðslu hjá þjóðinni. Hann sagði það misskilning að málið hefði fengið einhverja hraðferð í þinginu. Málið hefði verið ítarlega rætt í fyrstu og annarri umræðu og í nefndum þingsins.
Steingrímur ítrekaði það sem hann hefur áður sagt, að Icesave-málið stæði í vegi fyrir endurreisn efnahagslífsins og mikilvægt væri að ljúka málinu.