Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra sagðist hafa fundið fyrir miklum stuðningi út í samfélaginu í kjölfar dóms Hæstaréttar um skipulag Flóahrepps. Hún var hins vegar harðlega gagnrýnd í umræðum á Alþingi í dag og spurð hvort hún ætlaði ekki að axla pólitíska ábyrgð á pólitískum ákvörðunum.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, alþingismaður Sjálfstæðisflokks, sagði skýrt að sex hæstaréttardómarar hefðu komist að þeirri niðurstöðu að umhverfisráðherra hefði framið lögbrot. Hún sagði að það hefði áður gerst að ráðherra hefði fengið á sig dóm, en í þessum dómi fælist veruleg nýmæli. Ráðherra hefði i þessu máli tekið ákvörðun um að hafna skipulagi Flóahrepps og það hefði ekki verið gert af umhyggju fyrir lögum eða íslenskri stjórnsýslu. Svandís hefði sjálf sagt að þetta hefði verið pólitísk ákvörðun og því vaknaði sú spurning hvort pólitískum ákvörðunum fylgdi ekki pólitísk ábyrgð.
Ragnheiður Elín sagði að umhverfisráðherra hefði sagt að hún hefði tekið ákvörðun sína af umhyggju fyrir umhverfinu, en í ákvörðun um að synja skipulaginu staðfestingu væri ekkert minnst á umhverfið, kannski vegna þess að ráðherrann hafði engin umhverfisleg rök í málinu.
Ragnheiður Elín sagði að ráðherra hefði sagt að hún væri í þessu máli að vinna vinnuna sína. Hún minnti á að sveitarstjórnarmenn í Flóahreppi hefðu líka verið að vinna vinnuna sína.
„Aðilum þessarar ríkisstjórnar hefur verið tíðrætt um ábyrgð og vönduð vinnubrögð, en það er málið, að þau hafa einungis rætt um þetta. Það hafa verið settar siðareglur fyrir ráðherra og starfsfólkstjórnarráðsins. „Fyrsti hluti - óhlutdrægni. Stjórnarráð Íslands starfar á grundvelli laga í þágu almennings. Öll stefnumótun og ákvarðanataka mótast af sanngirni og virðingu fyrir lögum. Sérhagsmunir stýra ekki málsmeðferð eða niðurstöðu mála.“ Ég hvet umhverfisráðherra til að kynna sér þessar siðareglur,“ sagði Ragnheiður Elín.
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra sagði að umræða um þessi mál snertu almannahagsmuni og hvernig samskipti á sveitarstjórnarstigi ættu að vera. Hún rifjaði upp í þessu sambandi umræðu um samskipti stjórnvalda og viðskiptalífsins fyrir hrun. Líklegt væri að gagnrýni á þessi samskipti hafi ekki einskorðast við viðskiptalífið heldur ætti við um fleiri svið í aðdraganda hrunsins.
Svandís sagði að Hæstiréttur hefði ekki gert ágreining um stjórnsýsluathafnir vegna þess máls, en túlkað lög með öðrum hætti en ráðuneytið. „Ég hef ekki fundið fyrir öðrum eins stuðningi út í samfélaginu síðan haustið 2007 þegar svokallað REI-mál kom upp í borgarstjórn Reykjavíkur, en þá var um það að ræða að tengsl viðskiptalífs og stjórnmála urðu hættulega náin og jafnframt á kostnað almannahagsmuna eins og kunnugt er,“ sagði Svandís.
Birgitta Jónsdóttir og Þór Saari, þingmenn Hreyfingarinnar, lýstu yfir stuðningi við afstöðu umhverfisráðherra og Þór sagði að taka ætti skipulagsvaldið af sveitarfélögunum.
Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að ef ráðherra hefði pólitískan vilja til að gera breytingar ætti hún að beita sér fyrir breytingum á lögum en ekki fara gegn lögum. Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagði að Hæstiréttur hefði með dómi sínum hreinsað Flóahrepp af öllum ásökunum um mútuþægni.