Síða sem stóð fyrir undirskriftasöfnun til stuðnings þess að Icesave-samningurinn yrði samþykktur var eytt í gærkvöldi eftir að fyrirtækinu sem vistaði síðuna barst kvörtun um að á henni væri verið að safna ólöglegum gögnum.
„Þeir sem vistuðu síðuna lokuðu henni og eyddu henni,“ sagði Róbert Breiðfjörð Jóhannesson, sem stóð fyrir undirskriftasöfnun á netinu þar sem lýst er yfir stuðningi við að Icesave-samningurinn verði samþykktur á þingi og hann staðfestur án þjóðaratkvæðagreiðslu. Róbert sagði að á þeim 20 tímum sem síðan var opin hefðu um 1500 undirskriftir verið komnar á síðuna og um 17.000 heimsóknir.
„Það var einhver sem hafði samband við weebly.com, sem vistaði síðuna, og sagði að á síðunni væri verið að safna ólöglegum gögnum. Þeir sáu að það var búið að vera mikil trafík á síðunni og mikil gagnasöfnun og eyddu henni um kl. 19 í gær án þess að hafa samband við mig.“
Róbert sagðist hafa haft samband við stjórnendur weebly.com og útskýrt fyrir þeim hvað undirskriftasöfnunin hefði gengið út á og þeir hefðu beðist afsökunar, en síðunni hefði verið eytt og ekki væri hægt að endurvekja hana eða þær undirskriftir sem búið var að safna.
Róbert sagðist ekki vita hver hefði haft samband við weebly.com, en það hljóti að vera einhver sem sem væri eitthvað í nöp við þessa undirskriftasöfnun. Viðbrögð við síðunni hafi verið mjög mikil og meiri en hann átti von á.
Róbert sagðist vera hættur undirskriftasöfnun fyrst svona hefði farið.
Þriðja umræða um Icesave-samninginn hefst eftir hádegið í dag, en stjórnarmeirihlutinn stefnir að því að atkvæðagreiðsla um hann fari fram í þessari viku.