Verkalýðsfélag Akraness hefur aflýst boðuðu verkfalli í fiskimjölsverksmiðju HB Granda á Akranesi. „Það var ekkert annað í stöðunni eftir að hinar bræðslurnar afboðuðu verkfall,“ sagði Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA.
„Það er illa komið fyrir íslenskri verkalýðshreyfingu og aumingja íslenskir launþegar. Það er með ólíkindum að verða vitni að því að menn skuli ekki hafa kjark eða þor til að standa í lappirnar,“ sagði Vilhjálmur.
Vilhjálmur sagði það vera sitt mat að Samtök atvinnulífsins (SA) og Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hafi bundist órjúfanlegum böndum um að hér skuli engir fá neitt umfram það sem samið verður um í samræmdri launastefnu.
„Þetta tel ég vera meginástæðu þess hvernig hér fór,“ sagði Vilhjálmur. Hann kvaðst geta tekið undir það sem kom fram í yfirlýsingu sameiginlegrar samninganefndar AFLs Starfsgreinafélags á Austurlandi og Drífanda Stéttarfélags í Vestmannaeyjum að það sé miður að það skuli vera loðnubræðsla á Þórshöfn og í Helguvík.
„Það er ekki hægt annað en að harma slíkt, að menn skuli ekki standa saman,“ sagði Vilhjálmur. „En grundvallaratriðið held ég að sé þessi órjúfanlega samstaða ASÍ og SA um að fara hér í samræmda launastefnu, algjörlega óháð stöðu hverrar atvinnugreinar um sig. Það sé meginástæða þess að það fór sem fór. Ég vísa þessu alfarið á SA og ASÍ. Ég held að það sé orðið tímabært fyrir íslenska launþega að hugsa sinn gang.“