Aðstandendur síðunnar kjosum.is segja að vegna ítrekaðra árása einstaklings og vina hans á síðuna hafi verið haft samband við ríkislögreglustjóra. Aðstandendur síðunnar segja að öllum tilraunum til árása verði fylgt eftir af fullum þunga.
„Axel Þór Kolbeinsson, einn aðstandenda síðunnar, segir að málið sé í skoðun hjá ríkislögreglustjóra.
Árásirnar snúast um skráningu á löglegum kennitölum sem séu ekki í eigu einstaklinga. „Þær standast vartöluprófun, þ.e. standast reiknigetuna, en þær sem við höfum séð hingað til eru ekki í eigu einstaklinga,“ segir hann. Aðspurður segir Axel Þór að fljótt á litið sé um að ræða hátt í 50 undirskriftir, sem falli undir þessa árás.
„Árásirnar byrjuðu um kl. 12 í dag og haft var samband við ríkislögreglustjóra kl. 13:30,“ segir Axel Þór í samtali við mbl.is. Hann segir að tilgangurinn með árásinni sé að rýra framkvæmd undirskriftasöfnunarinnar. „Þetta er bara gert í einhverskona áróðurstilgangi,“ segir Axel Þór.
„Þetta er skipulögð árás og það hefur verið brugðist við upphafsmanni árásarinnar og er verið að bregðast við þeim sem þar á eftir fylgja,“ segir Axel Þór.
Alls hafa 31.766 skráð nafn sitt á undirskriftarlistann. Mikið álag hefur verið á síðunni en það vekur athygli að tala yfir fjölda undirskrifta hefur ekkert breyst í rúmar 10 mínútur.
„Við munu fylgja þessu á eftir af mesta mögulega þunga gagnvart öllum sem reyna slíkt hið sama,“ segir Axel Þór ennfremur.