Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, og aðrir þingmenn flokksins, greiddu atkvæði með breytingartillögu Þórs Saari, þingmanns Hreyfingarinnar, um að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um Icesave-lögin.
Bjarni er einn þeirra sjálfstæðismanna sem hafa lýst stuðningi við Icesave-frumvarpið. Fleiri þingmenn flokksins gerðu grein fyrir atkvæði sínu og sagði Kristján Þór Júlíusson m.a. að engin mótsögn væri fólgin í því að samþykkja samninginn og styðja þjóðaratkvæðagreiðslu.
„Ég treysti þjóðinni," sagði Pétur H. Blöndal.
Þingmenn Framsóknarflokks og Hreyfingarinnar greiddu einnig atkvæði með tillögunni. Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagði að þjóðin ætti ekki að þurfa að leggja traust í þessum efnum sitt á forseta Íslands þótt hann væri alls trausts verður.
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að ef forseti Íslands væri samkvæmur sjálfum sér muni hann senda málið í þjóðaratkvæðagreiðslu í ljósi þess að yfir 32 þúsund undirskriftir eru komnar á vefinn kjósum.is.
Allir þingmenn Samfylkingarinnar og flestir þingmenn Vinstri grænna greiddu atkvæði gegn tillögunni. Lilja Mósesdóttir og Ásmundur Einar Daðason, þingmenn VG, greiddu hins vegar atkvæði með tillögunni. Sagðist Lilja treysta því að þjóðin taki aftur rétta ákvörðun eins og hún gerði á síðasta ári. Ásmundur Einar sagði að úti í samfélaginu væri vaxandi krafa um breytt skipulag og vaxandi krafa um að þjóðin fái að koma meira að stjórn landsins.
Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að stjórnmálamenn ættu ekki að skorast undan ábyrgð og hlutverk þjóðkjörinna fulltrúa væri að leysa úr þeim úrlausnarefnum sem lögð væru fyrir þjóðþingið. Farsælast væri fyrir þing og þjóð að ganga frá málinu hér og nú.
Þór Saari sagðist fagna stuðningi Sjálfstæðisflokksins við tillöguna innilega.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist telja að búið væri að brúa þá gjá, sem hefði myndast milli þings og þjóðar fyrir rúmu ári og nú ætti að ljúka þessu máli.
Þráinn Bertelsson, þingmaður VG, sagðist kosinn á þing til að fjalla um mál eins og þetta og hann myndi ekki greiða þessari dellutillögu atkvæði.