Dregur úr trausti á Hæstarétti

Almenningur ber mest trausts til Landhelgisgæslunnar.
Almenningur ber mest trausts til Landhelgisgæslunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Dregið hefur úr trausti til Hæstaréttar ef marka má skoðanakönnun sem MMR gerði í síðustu viku, en fyrirtækið kannaði traust almennings til helstu stofnana á sviði réttarfars og dómsmála.

Af þeim stofnunum sem spurt var um nýtur Landhelgisgæslan mests trausts (80,8%), sérstakur saksóknari (59,8%) og ríkislögreglustjóri (55,1%). Helstu breytingarnar frá fyrri könnun eru þær að talsvert fleiri bera lítið traust til Hæstaréttar eða 34,7%, miðað við 29,1% í október 2010. 38,8% segjast bera mikið traust til Hæstaréttar, en þetta hlutfall var 41,8% í könnun sem gerð var í október.

Einnig eru marktækt fleiri sem bera lítið traust til Fangelsismálastofnunar, fer úr 17,5% í október 2010 í 22,1% í dag. Þá fer traust til Sérstaks saksóknara vaxandi en 59,8% svarenda ber mikið traust til hans í dag samanborið við 54,8% í október 2010 og 52,8% í október 2009. Þá fjölgar í hópi þeirra sem segjast bera mikið traust til Dómsmálaráðaneytisins, fer úr 24,5% í október 2010 í 30,2% í febrúar 2011.

Héraðsdómstólarnir njóta trausts 39,3% svarenda og 38,4% sögðust bera mikið traust til ríkissaksóknara. Þá sögðust 33,6% bera mikið traust til dómskerfisins í heild og 22,2% kváðust bera mikið traust til Útlendingastofnunar.

865 tóku þátt í könnuninni sem gerð var 8.-11. febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert