Sanddæluskipið Skandia gat ekki hafið dælingu í dag vegna ölduhæðar. Að sögn Guðjóns Egilssonar hjá Íslenska gámafélaginu sem gerir skipið út, verður reynt á ný í fyrramálið í birtingu en veðurspáin lofi hins vegar ekki góðu.
„Við vonum bara að veðrið gang niður í nótt,“ segir Guðjón en skipið getur ekki athafnað sig ef ölduhæð fer upp fyrir 2 metra.
Skipið varð einnig frá að hverfa í morgun við Landeyjarhöfn vegna ölduhæðarinnar. Lóðsinn mældi dýpi við Landeyjarhöfn í gær og sýndi mælingin sömu niðurstöðu og áður að ekki þyrfti að dæla miklu til að tækist að opna höfnina.