Umræðan um Icesave-samningana heldur áfram á Alþingi nú þegar klukkan er að verða tvö aðfararnótt miðvikudags. Stjórnarandstæðingar hafa verið nánast einir í þessari umræðu frá því síðla kvölds og hafa ýmsir þeirra gagnrýnt litla viðveru ráðherra, sem hafa lítið sést. Þeir hafa einnig gagnrýnt að fundað sé fram eftir kvöldi og nóttu og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, nefndi til að mynda að slæmur bragur væri á þessari afgreiðslu málsins.
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er þessa stundina í ræðustóli og hóf mál sitt á að taka undir með Gunnari Braga Sveinssyni, þingmanni Framsóknarflokksins, um að óljóst væri hvaða rök hnigu að því að halda áfram umræðum um málið á næturfundi. Birgir sagði enga tímapressu í málinu, ekkert sumarfrí eða jólafrí framundan og engin efnisleg rök fyrir næturfundi. „Hvað veldur þessum asa?“ spurði Birgir, og spurði hvort rétt væri að undirskriftasöfnunin á kjosum.is ylli hraða afgreiðslunnar. „Það kann að vera, ég veit það ekki,“ sagði hann.
Þegar þetta er skrifað eru þrír framsóknarmenn á mælendaskrá.