Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, greiddi atkvæði gegn frumvarpi um að fjármálaráðherra fái heimild til að staðfesta nýjan Icesave-samning.
Vísaði Lilja m.a. til þess að samningurinn setti mikinn þrýsting á velferðarkerfið.
Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, greiddi einnig atkvæði gegn samningnum. Sagði hann m.a. að þótt líkur á að allt fari á versta veg séu litlar myndi hann aldrei stíga upp í flugvél með barnabarnið sitt ef 3% líkur væru á að vélin hrapaði. Sagðist Pétur engin rök hafa séð um að Íslendingar eigi að greiða þessa kröfu Breta og Hollendinga.
Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði nei, nei, nei og sagðist ekki hafa sannfæringu fyrir því að samningurinn væri hagstæður Íslandi. Birgir Ármannsson, þingmaður flokksins, sagði það sitt mat, að hagsmunum Íslands væri betur borgið með því að fella samninginn.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði að Icesave-deilan hefði hvílt eins og mara á þjóðinni frá hruni. Íslensk stjórnvöld hefðu fengið það í fangið til úrlausnar og að endurreisa íslenskt þjóðfélag úr molum. Nú væri þjóðin með samning sem þjóðarbúið réði við.
„Við kjósum vandann ekki frá okkur heldur leysum hann að hætti siðaðra þjóða," sagði hún.
Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist óska þess að þjóðin hefði borið gæfu til að samþykkja Icesave-samninginn í júlí 2009.
Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sat hjá í atkvæðagreiðslunni. Birkir Jón Jónsson, þingmaður flokksins, greiddi atkvæði gegn frumvarpinu og sagði, að niðurstaðan í atkvæðagreiðslum um tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslu undirstrikaði að gjá væri milli þings og þjóðar í málinu.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, lýsti vonbrigðum með afstöðu Sjálfstæðisflokks í málinu og sagði að búið væri að gera hagsmuni landsins að verslunarvöru.