Ráðuneyti braut lög um persónuvernd

Fjármálaráðuneytið.
Fjármálaráðuneytið.

Persónuvernd telur að fjármálaráðuneytið hafi brotið gegn lögum um persónuvernd við gerð könnunar á einelti meðal ríkisstarfsmanna. Brotið fólst m.a. í því að þátttakendum var sagt að ekki yrði unnt að rekja svör til þeirra en í raun var öðruvísi um hnútana búið. Var ráðuneytið sem ábyrgðaraðili ótvírætt talið bera ábyrgð á hinni röngu fræðslu sem þátttakendur fengu.

Í nóvember 2010 barst Persónuvernd ábending frá lögreglu um að  persónuupplýsingar hefðu í september verið teknar ófrjálsri hendi frá Miðlun ehf. af fyrrum starfsmanni þess. Meðal þess sem maðurin tók voru svör sem einstaklingar gáfu þegar þeir tóku þátt í könnun fjármálaráðuneytisins á einelti meðal ríkisstarfsmanna. Svörin voru merkt með nöfnum viðkomandi einstaklinga.

Í svörum fjármálaráðuneytisins um með hvaða hætti fræða átti þátttakendur og hvaða spurningar skyldi leggja fyrir þá kom fram, að ekki átt með nokkrum hætti að vera unnt að rekja svör til þeirra.

Í framhaldi af ábendingu lögreglu fór Persónuvernd í heimsókn til Miðlunar og skoðaði sérstaklega vinnslu þess fyrir fjármálaráðuneytið vegna umræddrar eineltiskönnunar. Þá upplýsti Miðlun að félagið hefði eytt ýmsum persónuupplýsingum eftir að mál varðandi þjófnað fyrrum starfsmanns þess kom til rannsóknar lögreglu. Hins vegar kom fram að gögnin hefðu fram að því verið vistuð í tölvukerfi félagsins. Þar hefði verið skrá yfir spurningar og svör við þeim auðkennd með nöfnum þátttakenda. Svörin munu almennt hafa birst sem númer spurninga sem hakað var við. Í vissum tilvikum hafi verið gert ráð fyrir að þátttakendur rituðu texta í frjálsa textareiti og mátti þá lesa þann texta.

Í úrskurði Persónuverndar segir að ábyrgðaraðili beri lögum samkvæmt ábyrgð á því að hinir skráðu fái rétta fræðslu um vinnslu, þ. á m. um tilgang hennar og þau atriði sem honum eru nauðsynleg svo hann geti gætt hagsmuna sinna. „Ber fjármálaráðuneytið, sem ábyrgðaraðili, ótvírætt ábyrgð á hinni röngu fræðslu sem þátttakendum í könnuninni var veitt. Er þá einkum litið til þess að í fræðslubréfi var ranglega fullyrt að svör þátttakenda yrðu með öllu órekjanleg, þótt til hafi staðið að hafa annan hátt á.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert