Utanríkisráðuneytið segir í svari við fyrirspurn þingmanns á Alþingi, að það telji síður en svo eftir sér að beita skapandi túlkun til að greiða úr flækjum sem af því kunna að spinnast þegar það hendi bestu menn og konur í hröðum erli dagsins að villast á samningum.
Tilefnið er fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, sem spurði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, á Alþingi hvort það samræmist ákvæðum um að erlend sendiráð skipti sér ekki af innanlandsmálum, sbr. 55. gr. Vínarsamningsins, þegar beinlínis sé gert ráð fyrir að sendiráð Evrópusambandsins komi að kynningarmálum sambandsins hér á landi.
Í svari ráðherrans er bent á, að sendiráð ESB falli, eins og önnur sendiráð undir Vínarsamninginn um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961. Spurning Vigdísar lúti hins vegar að því hvort starfsemi umrædds sendiráðs sé í samræmi við „55. gr. Vínarsamningsins“.
„Þá
myrkvast málið," segir í svari utanríkisráðherra. „Hvorki
löglærðum embættismönnum ráðuneytisins né ráðherra hefur tekist að
finna umrædda 55.
grein í Vínarsamningnum um stjórnmálasamband. Fyrirspyrjandi hefur að
líkindum farið
samningavillt og er að vitna til 55. greinar í öðrum samningi, sem líka
er kenndur við Vín.
Sá er frá 24. apríl 1963 og er um ræðissamband. Sú grein er aftur
efnislega samhljóða 41.
grein Vínarsamningsins um stjórnmálasamband sem fjallar um starfsemi
sendiráða, þarmeð
þess sendiráðs sem hæstvirtur þingmaður spyr um," segir í svari ráðherrans.
Eftir að hafa beitt skapandi túlkun kemst ráðherrann síðan að þeirri niðurstöðu að starfsemi sendiráðs ESB „falli eins og flís við rass" við e-lið 1. mgr. 3. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband. Svar ráðherrans við spurningunni er því játandi.