Síðast hugsaði forsetinn málið í sex sólarhringa

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands tilkynnti ákvörðun sína á Bessastöðum …
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands tilkynnti ákvörðun sína á Bessastöðum 5. janúar árið 2010. Rax / Ragnar Axelsson

Engin skýr ákvæði eru í lögum um hvað forseti má taka sér langan tíma til að taka ákvörðun um staðfestingu laga. Þegar hann hafnaði síðustu Icesave-lögum staðfestingar voru liðnir sex sólarhringar frá því lögin voru samþykkt á Alþingi. Algengast er að lög séu staðfest innan sólarhrings.

Icesave-lögin eru á ábyrgð fjármálaráðherra og það er því fjármálaráðuneytið sem gengur frá pappírum sem sendir verða forsetaembættinu til formlegrar undirritunar.

Síðustu Icesave-lög voru samþykkt á Alþingi 30. desember 2009. Forseti tilkynnti síðan 5. janúar að hann ætlaði að vísa lögunum til þjóðaratkvæðis.  Áramótin geta því hafa haft áhrif á hversu langan umhugsunartíma forsetinn tók sér. Þegar forsetinn hafnaði fjölmiðlalögunum leið hins vegar aðeins sólarhringur þar til hann tilkynnti ákvörðun sína.

Ólafur Ragnar Grímsson las upp yfirlýsingu á Bessastöðum þegar hann tilkynnti fjölmiðlum ákvörðun sína. Í henni sagði hann m.a: „Að undanförnu hefur orðið æ ljósara að þjóðin þarf að vera sannfærð um að hún sjálf ráði þeirri för. Þátttaka hennar allrar í endanlegri ákvörðun er því forsenda farsællar lausnar, sátta og endurreisnar. “

Yfirlýsing forseta um Icesave frá 5. janúar 2010

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert