Vigdís Hauksdóttir alþingismaður hefur ákveðið að sitja áfram í umhverfisnefnd Alþingis. Vigdís sagði sig úr nefndinni í gærmorgun og sagði ástæðu uppsagnarinnar vera yfirgang og frekju Marðar Árnasonar, formanns nefndarinnar og þingmanns Samfylkingarinnar.
Mörður kvaddi sér hljóðs í upphafi þingfundar á Alþingi í gær og sagðist hafa beðið Vigdísi afsökunar á harðneskjulegri fundarstjórn á fundi umhverfisnefndar þingsins og sagðist vonast til að Vigdís endurskoðaði þá ákvörðun sína að segja sig úr nefndinni.
„Ég hef endurskoðað afstöðu mína af því að hann baðst afsökunar. Þetta var tekið upp á þingflokksfundi Framsóknarflokksins og teljum við að það þjóni hagsmunum flokksins að ég sitji áfram í umhverfisnefnd og hafi þá ákveðið dempunarvald á Mörð þar inni,“ segir Vigdís.