„Þetta er ekkert annað en sýndardómur“, segir Birna Gunnarsdóttir systir eins sakbornings eftir að dómur í máli nímenninganna féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður hinna ákærðu, segir óljóst hvort dómnum verið áfrýjað. Fullt var út úr dyrum í réttarsalnum og biðu margir fyrir utan salinn.
Niðurstaða Héraðsdóms varð sú að Andri Leó Lemarquis var dæmdur í 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi, Þór Sigurðsson í 60 daga skilorðsbundið fangelsi og Sólveig Anna Jónsdóttir og Steinunn Gunnlaugsdóttir, voru dæmdar í 100 þúsund króna sekt. Aðrir voru sýknaðir.
Héraðsdómur sýknaði meðal annars alla sakborningana af ákæru fyrir að hafa í félagi framið brot gegn valdstjórninni. Vísar dómurinn til þess, að sakborningarnir hafi neitað því að hafa farið inn í þinghúsið með það í huga að beita starfsmenn þingsins ofbeldi eða hindra þá í störfum.
Þá bendi framburðir vitna og gögn í málinu,
svo sem myndskeið, ekki til þess að átökin við þingverði og lögreglu hafi verið
undirbúin. Þá hafi ekki verið leitt í ljós í málinu að fólkið hafi haft í frammi hótanir gagnvart lögreglu og þingvörðum.