„Þess vegna verðið þið, ágætu alþingismenn, að sjá til þess að tjöldin verði dregin frá í fjármálastofnunum þessa lands og ljósinu hleypt inn.“ Þetta skrifar Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í opnu bréfi til Alþingis sem birt var í Morgunblaðinu um helgina.
Þingmenn sem rætt var við taka lögeggjan Kára vel. „Ég tek þessari áskorun Kára mjög vel og mér finnst þetta vera góð brýning hjá honum,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
„Bankaleynd getur verið nauðsynleg vegna einkamálefna einstaklinga og þegar tveir einkaaðilar eiga í viðskiptum sín á milli er það ekkert endilega í almannaþágu að þau séu birt á forsíðum blaðanna,“ segir hún.
Hins vegar geti menn ekki skýlt sér á bak við bankaleynd ef um er að ræða opinber málefni sem vel þola dagsins ljós. Það sé einfaldlega ekki boðlegt að ákvarðanir banka í ríkiseigu um sölu fyrirtækja sem jafnframt eru í eigu ríkisins séu hulin leyndarhjúp í reykfylltum bakherbergjum.
„Ég fagna allri umræðu um þessi mál,“ segir Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar og varaformaður viðskiptanefndar. Hann bendir þó á að ýmislegt hafi verið gert. Viðskiptanefnd hafi á sínum tíma haft frumkvæði að því að samdar voru nákvæmar verklagsreglur fyrir fjármálafyrirtækin, m.a. um uppgjör skulda fyrirtækja. Þar sé mikil áhersla lögð á gegnsæi.
Árni Þór Sigurðsson, starfandi formaður þingflokks Vinstri grænna, segir að almennt séð eigi gagnrýni á skort á gegnsæi í bönkunum rétt á sér og að bankarnir þurfi að gera betur.