Velferðarsvið Reykjavíkur segir að það sé ekki rétt sem haldið er fram í skýrslu Barnaheilla um börn og heimilisofbeldi, að meirihluta tilkynninga um heimilisofbeldi til Barnaverndar Reykjavíkur sé vísað frá.
Velferðarsviðið þakkar það framtak Barnaheilla að standa að málþingi um börn og heimilisofbeldi og hvetja þar með til umræðu um börn sem verða vitni að heimilisofbeldi. Það sé dýrmætt fyrir þá sem starfa að bættum hag barna að fá rannsókn sem varpar ljósi á aðstæður barna sem búa við heimilisofbeldi. Í skýrslu Barnaheilla um málið séu hins vegar ákveðnar rangfærslur sem þarfnast leiðréttinga.
Í skýrslunni segir; „Það virðist lítil áhersla vera lögð á það innan félagsþjónustunnar að ræða við börn sem búa við eða hafa búið á heimilum, þar sem ofbeldi er á milli foreldra.“ Þetta segir Velferðarsviðið að sé ekki rétt. „Hið rétta er að fá mál skipta meira máli en líf og aðbúnaður barna og ungmenna og hefur sérstaklega verið fylgst með þessum hópi eftir efnahagshrunið. Í fréttaflutningi er sagt að meirihluta tilkynninga um heimilisofbeldi til Barnaverndar Reykjavíkur sé vísað frá en það er rangt. Sem dæmi má nefna að í apríl 2010 var tilkynnt um 37 börn til Barnaverndar Reykjavíkur vegna heimilisofbeldis. Af þeim var 4 málum vísað frá með bréfi, önnur fóru í könnun eða voru þegar í vinnslu. Í janúar 2011 voru 26 tilkynningar um börn vegna heimilisofbeldis, 8 málum var vísað frá með bréfi með leiðbeiningum um þjónustu. Önnur mál voru könnuð nánar eða voru þegar í farvegi. Lögreglan hafði í einu tilviki kallað starfsmenn á vettvang. Þegar þessi mál eru skoðuð nánar, hefði í sumum tilvikum vissulega mátt ganga markvissar til verks hvað varðar það ofbeldi, sem börnin höfðu orðið vitni að. Mikilvægt er að geta þess að mörg barnanna voru þá þegar að fá úrræði á grundvelli barnaverndarlaga sem m.a. tóku til líðan þeirra vegna heimilisaðstæðna.
Í skýrslunni er talað um að skortur sé á aðgengilegum úrræðum hjá félagsþjónustu fyrir börn sem eiga í tilfinningavanda. Á öllum þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar er sérstaklega horft á hvernig líðan barna og unglinga er og m.a. boðið upp á skammtímameðferð sálfræðinga vegna tilfinningavanda þessa aldurshóps. Ýmis sérnámskeið eru fyrir þennan hóp sem borið hafa góðan árangur.
Starfsfólk Velferðarsviðs sem vinnur með börnum, hvort sem er á vettvangi Barnaverndar Reykjavíkur eða þjónustumiðstöðva í hverfum, verður ítrekað vitni að vanlíðan barna. Starfsmenn Velferðarsviðs fagna því þeirri málefnalegri umræðu sem fram fór á málþingi Barnaheilla í dag. Ekki hvað síst var ánægjulegt að upplifa vilja fagaðila til samstarfs um bætta þjónustu við börn sem hafa orðið vitni að ofbeldi á heimilum sínum. Ljóst er að ýmislegt má bæta og hér gefast tækifæri til þess. Í þjónustu við börn þarf að leggja aukna áherslu á að ræða hispurslaust við þau og spyrja spurninga um líf þeirra og líðan,“ segir í fréttatilkynningu frá Velferðarsviði borgarinnar.