Forsætisráðherra segir að nefnd, sem skipuð var í kjölfar ákvörðunar Hæstaréttar að ógilda stjórnlagaþingskosningarnar, sé enn að störfum.
„Vonandi skilar hún sem allra fyrst. Þar eru einkum þrjár leiðir uppi á borðinu sem nefndin er að skoða, og ég ætla ekki að tjá mig sérstaklega,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir.
Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði Jóhönnu hvað hún ætli sér að gera varðandi stjórnlagaþingið.
Jóhanna segir að málið sé í höndum nefndarinnar, sem sé ætlað að fjalla um það sem eigi að taka við eftir að Hæstiréttur ógilti kosningarnar. „Ég bíð eftir að fá niðurstöður hennar. Hvað það er sem hún leggur til áður en ég fer að tjá mig um það hvað er fýsilegasta leiðin, sem að taki við nú þegar ógilding Hæstaréttar liggur fyrir,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir.