Kostnaður við að halda stjórnlagaþing í tvo mánuði er áætlaður 272 milljónir. Ef heimild til að framlengja þinghaldið í fjóra mánuði er nýtt yrði kostnaðurinn 408 milljónir.
Þetta kemur fram í skriflegu svari fjármálaráðherra við fyrirspurn frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni alþingismanni. Mestur kostnaður er vegna launa þingfulltrúa, en miðað er við að þeir séu 31. Kostnaðurinn er áætlaður 42 milljónir vegna tveggja mánaða og 84 milljónir vegna fjögurra mánaða þinghalds.
Í fjárhagsáætluninni var gert ráð fyrir að kostnaður við tveggja mánaða þinghald yrði 260 milljónir króna en ef heimild um framlengingu þingsins yrði nýtt var áætlað að kostnaður ykist um 70 milljónir króna fyrir hvern mánuð. Mismunurinn skýrist af fjárveitingu til kaupa á sérfræðiþjónustu fyrir stjórnlaganefnd. Kostnaður við þá nefnd fellur undir kostnað við stjórnlagaþing.
Í öðru svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs kemur fram, að kostnaður við þjóðfund, sem haldinn var í nóvember til undirbúnings stjórnlagaþingi, nam 63,5 milljónum króna. Þar af var þóknun til þjóðfundarfulltrúa rúmar 16 milljónir króna.