Arnar Guðmundsson, blaðamaðurinn sem sendi Persónuvernd erindi í gær vegna undirskriftasöfnunar á síðunni kjosum.is, hætti sem aðstoðarmaður Katrínar Júlíusdóttur, iðnaðarráðherra á mánudaginn.
Söfnunin hófst síðasta föstudagskvöld, 11. febrúar en Arnar lét af starfinu aðstoðarmanns mánudaginn 14. febrúar. Hann lagði svo formlega fram erindi til Persónuverndar í gær líkt og rakið er í endurbirtum bréfaskiptum hans og Persónuverndar á vef Eyjunnar.
Fram kemur á vef iðnaðarráðuneytisins að Kolbeinn Marteinsson hafi tekið við sem aðstoðarmaður Katrínar en hann staðfesti í samtali við mbl.is að það hefði hann gert þriðjudaginn 15. febrúar.
Fram kom á vef Eyjunnar í gær að Arnar hafi verið ráðinn til Fjárfestingarstofu.
Ekki náðist í Arnar.