Félagar í samtökunum Bót, aðgerðahópi um bætt samfélag, lýstu kröppum kjörum sínum á opnum borgarafundi um fátækt í Reykjavík í síðustu viku. Einn aðstandenda fundarins undrast áhugaleysi fjölmiðla og segir efnalítið fólki þurfa að neita sér um tannviðgerðir. Fundurinn er nú aðgengilegur á netinu.
Boðað var til fundarins í kjölfar þess að Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra kynnti ný neysluviðmið en samkvæmt þeim er dæmigert viðmið fyrir einstakling á höfuðborgarsvæðinu 292.000 krónur í tekjur á mánuði og er þá tekið tillit til almennra útgjalda, þar með talið húsnæðis og samgangna.
Kristbjörg Þórisdóttir, varaformaður Landssambands framsóknarkvenna, segir stöðu fátækra í íslensku samfélagi grafalvarlega og að meira þurfi að koma til en fögur fyrirheit.
„Borða ekki falleg orð“
„Markmiðið með þessum fundi var að leiða saman hagsmunaðila, fulltrúa atvinnulífsins og stjórnkerfisins til að ræða grunnframfærslu og neysluviðmið með raunverulegar lausnir að leiðarljósi. Fólk borðar ekki falleg orð. Á meðan að við finnum ekki þessar lausnir sveltur fólk í samfélaginu.
Það gerist þrátt fyrir að fólk hafi stjórnarskrárvarin rétt til að fá þennan stuðning samkvæmt mannréttindasáttmála sem við höfum skrifað undir,“ segir Kristbjörg um opinn borgarafund gegn fátækt á Hressingarskálanum í síðustu viku.
Átakanlegar reynslusögur
„Það var átakanlegt að heyra reynslusögur félagsmanna í samtökunum Bót. Við heyrðum þá lýsa raunverulegum reynslusögum. Ég held að það væri fulltrúum stjórnkerfisins hollt að fara á netið og heyra fólkið lýsa lífsbaráttu sinni,“ segir Kristbjörg og vísar á upptöku af fundinum á vefnum Hjari veraldar.
„Fólk lýsti því hvernig það gat ekki sinnt tannheilsu og öðrum lágmarksþörfum. Það lýsti sárri fátækt og miklum erfiðleikum. Ég þekki þennan heim af kynnum mínum við fólk í erfiðleikum og þetta kom mér því ekki á óvart. Það var hins vegar greinilegt á viðbrögðum margra viðstaddra að þeir áttu erfitt með að heyra sögur þessar fólks. Þessi erfiða lífsbarátta kom þeim á óvart.“
Skattleysismörk verði hækkuð
Kristbjörg kveðst undrast áhugaleysi íslenskra fjölmiðla um kjör þeirra sem verst standa og bendir á að fyrir utan Framsókn hafi aðeins Vinstri grænir efnt til sambærilegs borgarafundar. Hún skorar því á aðra flokka að láta málið til sín taka með opinskárri umræðu um fátækt á Íslandi.
„Við teljum að það þurfi að skilgreina betur þá upphæð sem þarf til að lifa mannsæmandi lífi á Íslandi og finna út hvernig við getum borið hana uppi sem samfélag. Það eru margar hliðar á þessu máli og það þarf að huga að atvinnuuppbyggingu og endurhæfingu og starfsþjálfun fólks sem er komið í þessa stöðu. Aðalatriðið er þó að skilgreina grunnframfærslu. Það þarf að hækka skattleysismörk þannig að fólk sem er á atvinnuleysis- og örorkubótum sé ekki skattlagt,“ segir Kristbjörg.
Í pallborði fundarins sátu: Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, Sigríður Jónsdóttir, sérfræðingur úr velferðarráðuneytinu, Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, Helgi K. Hjálmsson, formaður Landssambands eldri borgara, Gerður Aagot Árnadóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar, Guðmundur Ingi Kristinsson, formaður Bótar, Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Framsóknar og nefndarmaður í félagsmálanefnd, Vigdís Hauksdóttir, þingkona Framsóknar og Elín Líndal, formaður sveitarstjórnarráðs Framsóknar.