Skandia farin að dæla sandi

Dýpkunarskipið Skandia.
Dýpkunarskipið Skandia.

„Það gengur fínt núna,“ segir Guðjón Egilsson, hjá Íslenska gámafélaginu, þegar hann var spurður hvernig gengi hjá sanddæluskipinu Skandia. Hann segir að stefnt sé að því að vinna að krafti að sanddælingu við Landeyjarhöfn í dag og næstu daga.

Um tveggja metra ölduhæð er við Landeyjarhöfn núna og sagði Guðjón að sanddæling gengi engu að síður vel. Búnaðurinn stæði því undir væntingum. Búið er að koma svokölluðum öldujafnara fyrir á skipinu, en hann tryggir að dælurörið haldist við botninn þrátt fyrir að skipið velti.

Sanddæling hófst um kl. 13 í dag. Skipið tekur um 500 tonn af sandi í hverri ferð. Guðjón sagði að ekki yrði unnið að sanddælingu í nótt þar sem skipstjóri skipsins treysti sér ekki til að vinna við aðstæður sem hann þekkti ekki.

Stefnt hefur verið að því að opna höfnina fyrir helgi. Guðjón vill ekki útiloka að það geti tekist, en segir að það fari eftir því hvernig gangi í dag og á morgun.

Vika er liðin frá því skipið kom til landsins, en veður hefur komið í veg fyrir sanddælingu fram að þessu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert