Umhverfisráðuneytið og sveitarstjórn Skaftárhrepps hafa náð samkomulagi um stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs innan lögsögu sveitarfélagsins. Haft er eftir Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra á vef ráðuneytis hennar að samkomulagið sé „tímamótaáfang í náttúruvernd hér á landi“.
Segir þar að samkvæmt samkomulaginu muni „verða unnið að friðlýsingu á Langasjó, hluta Eldgjár og nágrennis eins og lagt er til í Náttúruverndaráætlun 2009-2013“.
Starfsmenn ráðuneytisins lýsa aðdraganda og mikilvægi samkomulagsins svo:
„Innan þessa svæðis eru náttúruminjar sem taldar eru hafa mikið gildi á heimsvísu, auk hins háa útivistar, fræðslu og vísindagildis svæðisins.
Í tengslum við samkomulagið hefur sveitarstjórn Skaftárhepps unnið að endurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins sem samþykkt var á fundi sveitarstjórnar þann 14. febrúar þar sem umrædd stækkun þjóðgarðsins kemur meðal annars fram.
Skaftárhreppur og umhverfisráðuneytið hafa jafnframt gert með sér samkomulag um stýrihóp vegna aðgerða gegn gróður- og landeyðingu á áhrifasvæði Skaftár. Mun hópurinn hefja störf nú í vor til að vinna að brýnum viðfangsefnum á Skaftársvæðinu í samstarfi við hlutaðeigandi aðila.
Stækkunin tekur til tveggja svæða á Náttúruverndaráætlun 2009-2013, samtals um 420 ferkílómetrar.“