Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra segir að það komi vel til greina skipað sérstaka verkefnisstjórn um viðbrögð stjórnvalda vegna díoxínmengunar. „Það er mikilvægt að samhæfa hér eftirlitsaðila,“ segir hún.
Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði umhverfisráðherra hver verði næstu skref stjórnvalda í málinu í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun.
Svandís bendir á að hún hafi óskað eftir því við ríkisendurskoðun að það fari. fram ítarleg endurskoðun á málinu ríkisendurskoðun. „Ég vænti þess að þessi rannsókn taki ekki of langan tíma þannig að fyrirliggi hvað fór úrskeiðis þarna í stjórnsýslu umhverfismála,“ segir Svandís.
Hún bendir jafnframt á að Umhverfisstofnun hafi tekið mjög myndarlega á málinu. Auk þess að mæla umhverfismengun á áhrifasvæði sorpbrennslunnar Funa í Skutulsfirði og annarra sorpbrennsla, þá muni hún hefja mælingar víðar á annarri mengandi starfssemi sem sannarlega losi díoxín.
„Gerðar verða mælingar á jarðvegssýni úr Hvalfirði í nágrenni Norðuráls og járnblendisins, í nágrenni Alcoa í Reyðarfirði, í nágrenni álvers Rio Tinto í Straumsvík og síðan hyggst Umhverfisstofnun skoða ákvæði um mælingar á díoxíni hjá stóriðju og koma á reglubundnum mælingum. Og jafnframt að skoða jarðvegssýni af þekktu svæði þar sem áramótabrennur eru haldnar árlega. En áramótabrennur er mikill losunarvaldur díoxíns,“ segir ráðherra.
„Ég sendi bréf til umræddra sveitarfélaga með beiðni um það að þeir aðilar dragi úr eða stöðvuðu brennsluna eins og nokkur væri kostur á meðan mælingunum stæði til þess að koma í veg fyrir það að við byggjum við óvissuna,“ segir Svandís.
„Við munum halda utan þetta vel og ég tek ábendingu þingmannsins alvarlega með það að setja í gang sérstaka verkefnisstjórn,“ segir Svandís.