Samtök atvinnulífsins telja að úrskurðarnefnd sem starfar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir virði ekki lög þar sem nefndin hafi aðeins í eitt skipti af 20 úrskurðað áður en lögbundinn frestur rann út.
Samtök atvinnulífsins hafa kannað hversu langan tíma það tekur úrskurðarnefnd sem starfar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir að kveða upp úrskurði í þeim málum sem þangað er beint. Þau mál sem nefndin fjallar um tengjast meðal annars starfsleyfum fyrirtækja og ýmsum þáttum sem umrædd lög taka til. Aðeins í eitt skipti af 20 hefur úrskurðarnefndin kveðið upp úrskurð innan lögbundinna tímamarka en að meðaltali tók það nefndina 40 vikur að kveða upp úrskurð sinn eða sem nemur tíföldum lögbundnum fresti (4 vikur) í hefðbundnum málum.
Í viðameiri málum er lögbundinn hámarksfrestur 8 vikur en sá úrskurður sem næstskemmstan tíma tók var kveðinn upp 9 vikum frá kæru. Úrskurðir í 7 málum voru kveðnir upp eftir 3-6 mánuði, í 5 tilvikum eftir 6-9 mánuði, í þremur málum eftir 9-12 mánuði, í einu eftir 16 mánuði, í öðru eftir 27 mánuði og í enn einu eftir 39 mánuði.
„Það er atvinnulífinu mjög mikilvægt að sá tími sem tekur að fá úrskurði stjórnsýslunnar í einstökum málum sé eins skammur og unnt er. Í því tilviki sem hér er rakið er úrskurðartíminn allt of langur og alveg ljóst að nefndin virðir alls ekki ákvæði laga sem um hana gildir. Það er ljóst að þessi langi afgreiðslutími er verulega íþyngjandi fyrir alla þá sem sækja mál fyrir þessum aðilum. Nauðsynlegt að stjórnvöld grípi til aðgerða og tryggi að farið sé að lögum. Ástandið er óviðunandi,“ segir í fréttatilkynningu frá samtökunum.