Skipstjóri Goðafoss segir við norska útvarpið, að það sé ástæða fyrir því að skipið strandaði við Hvaler í Óslóarfirði í gærkvöldi. Hann vilji hins vegar ekki tjá sig um það að svo stöddu. Norska lögreglan mun yfirheyra skipstjórann síðar í dag.
Skipstjórinn staðfesti við vef NRK að hann hefði verið í brúnni þegar skipið strandaði í gærkvöldi en vildi að öðru leyti lítið tjá sig um málið.
Fjórtan manna áhöfn er um borð í Goðafossi og sakaði engan þegar skipið strandaði. Haft er eftir Elise Rusten, starfsmanni norsku siglingastofnunarinnar, að íslenski skipstjórinn þekki vel aðstæður á þessum slóðum enda sigli skipið hálfsmánaðarlega þessa leið.