Einn fallegasti staðurinn í Óslóarfirði

Goðafoss á strandstað.
Goðafoss á strandstað. Reuters

Helga Steingrímsdóttir, kennari í Fredrikstad í Noregi, segir að Goðafoss hafi strandað á versta stað sem hægt sé að hugsa sér. Þetta sé einn fallegasti staðurinn í Óslóarfirði og fjöldi fólks sæki þetta svæði á sumrin til að njóta einstakrar náttúru.

„Þetta er einn fallegasti staðurinn í Óslóarfirði og algjör paradís á sumrin,“ sagði Helga. „Fólk kemur þarna til að liggja á ströndinni á sumrin. Það er fullt af fólki sem kemur frá Ósló til að njóta náttúrunnar. Þetta er eitt dýrasta svæði fyrir sumarhús í Noregi,“ sagði Helga sem býr ásamt Eiríki Haukssyni tónlistarmanni stutt frá þeim stað þar sem Goðafoss strandaði.

Helga sagði að fólk á þessu svæði hefði eðlilega áhyggjur af olíumengun frá skipinu, en henni hefði skilist að ástandið væri ekki eins slæmt og óttast var í fyrstu. Hún sagði miklu skipta að takist að koma í veg fyrir olíumengun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert