Nefnd sem skipuð var í kjölfar þess að Hæstiréttur ógilti stjórnlagaþingskosningarnar er enn að störfum þrátt fyrir að stefnt hefði verið að því að hún skilaði tillögum um framtíð stjórnlagaþingsins þann 15. febrúar síðastliðinn.
Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í gær spurði Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hvað Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra ætlaði sér að gera varðandi stjórnlagaþingið en Jóhanna sagðist ekki vilja tjá sig um hvaða leið sér þætti fýsilegust fyrr en nefndin hefði lokið störfum.
Að sögn Jóhönnu er nefndin einkum að skoða þrjár tillögur en að sögn Péturs Blöndal, þingmanns og fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í nefndinni, er í raun um fjórar leiðir að ræða.
„Ein er sú að telja upp á nýtt, önnur er að skipa eða ráða tuttuguogfimmmenningana sem kosnir voru sem einhvers konar nefnd eða ráð sem gegndi svipuðu hlutverki og þeir áttu að gegna. Þriðja er að fara í alveg nýtt ferli með kosningum, lagabreytingum og jafnvel breytingum á kosningareglunum, og fjórða er svokölluð uppkosning þar sem kosið væri að nýju á milli þeirra 525 frambjóðenda sem buðu sig fram og kosningaframkvæmdinni yrði breytt þannig að hún stæðist allar kröfur,“ segir Pétur.