Forsvarsmenn vefsíðunnar kjósum.is
afhentu Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, klukkan 11 í morgun
undirskriftir tæplega 41.000 Íslendinga sem skrifuðu undir áskorun þess
efnis að forsetinn synjaði lagafrumvarpi um ríkisábyrgð á Icesave
samningunum og að þjóðin fengi að úrskurða um málið.
Undirskriftirnar
voru afhentar á Bessastöðum klukkan 11 í morgun og við þetta tækifæri
sagði Ólafur Ragnar að um afar erfitt og flókið mál væri að ræða. Hann
sagðist eiga von á að taka sér nokkurra daga umhugsunarfrest, Alþingi
hefði varið vikum og mánuðum í að ræða það og ekki væri hægt að ætlast
til þess að forsetinn væri fljótari að hugsa.
Ólafur Ragnar
spurði út í þá aðferðafræði sem beitt hefði verið við söfnunina og
hvernig undirskriftirnar hefðu verið sannreyndar.
Aðstandendur
undirskriftasöfnunarinnar sögðu að hringt hefði verið í slembiúrtak 100
manna, sem skrifað hefðu undir til að kanna réttmæli undirskriftanna.
Æskilegt hefði verið að hafa samban d við fleiri, en til þess hefði ekki
unnist tími.
Afhentar voru þær undirskriftir sem safnast höfðu í
gærmorgun og höfðu verið sannreyndar, en þær voru um 38.000 talsins.
Auk þess voru afhentar undirskriftir sem hafa borist síðan þá og hafa
ekki verið sannreyndar og voru þær samtals um 41.000.
Að lokinni afhendingu undirskriftanna, settust forsvarsmenn undirskriftasöfnunarinnar að fundi með Ólafi Ragnari.