Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að hafna kröfu Þorsteins Ingasonar um að fá að leiða 16 nafngreind vitni fyrir dóm í tengslum við skaðabótamál sem Þorsteinn höfðaði á hendur Búnaðarbanka Íslands fyrir áratug.
Þau sem Þorsteinn vildi kalla sem vitni eru Ólafur Davíðsson, Baldur Guðlaugsson, Sævar Þór Sigurgeirsson, Jón Sveinsson, Guðmundur Ólason, Benedikt Árnason, Skarphéðinn Berg Steinarsson, Finnur Ingólfsson, Ólafur Ólafsson, Margeir Daníelsson, Axel Gíslason, Kristján Loftsson, Kristinn Hallgrímsson, Knútur Þórhallsson, Sigurður Jónsson og Hildur Árnadóttir. Þessir einstaklingar komu að sölu á Búnaðarbankans til S-hópsins svonefnda árið 2003.
Þorsteinn höfðaði árið 2001 mál á hendur Búnaðarbanka Íslands og krafðist 500 milljóna króna í skaðabætur vegna falsana á víxlum sem hefðu leitt til þess að bankinn gekk að eignum hans. Málið var síðan fellt niður árið 2004 vegna ónógra sönnunargagna. Þorsteinn hefur reynt að höfða málið að nýju en því hefur jafnan verið vísað frá dómi.
Þorsteinn telur, að krafa hans á hendur Búnaðarbankanum kunni að hafa haft áhrif á söluverð bankans, þegar íslenska ríkið seldi hann hópi fjárfesta í janúar 2003. Bendir hann meðal annars á að kaupverð bankans hafi lækkað um rúmar 530 milljónir króna frá samningsdrögum í nóvember 2002 þar til endanlegur samningur var gerður í janúar 2003.
Því vildi Þorsteinn fá að taka vitnaskýrslu af þeim sem komu að sölunni, bæði fyrir hönd kaupenda og seljenda, til þess að inna þá eftir því hvaða meðferð skaðabótakrafa hans hlaut við sölu bankans og hvort og að hve miklu leyti hún hafði áhrif til lækkunar á endanlegu kaupverði bankans.
Taldi Þorsteinn að ef umræddir menns taðfestu að kaupendur bankans hafi fengið afslátt af áður umsömdu kaupverði bankans gæti falist viðurkenning á réttmæti kröfu Þorsteins.
Héraðsdómur segir hins vegar, að Þorsteinn hafi ekki haldið því fram að umrædd vitni þekki þau atvik sem leiddu til þess að hann varð fyrir meintu tjóni af hálfu Búnaðarbankans. Þótt menn kunni að hafa rætt síðar meir um möguleg afdrif kröfunnar í dómsmáli, sem kynni að verða rekið, og hafi hugsanlega látið þær vangaveltur hafa áhrif á gerðir sínar og ákvarðanir færi það ekki neinar sönnur fyrir því að krafan hafi í upphafi stofnast.
Taldi héraðsdómur, og síðan Hæstiréttur, að tilgangurinn með vitnaleiðslunni væri ekki sá að varpa ljósi á þau
atvik sem Þorsteinn taldi grundvöll skaðabótakröfu sinnar. Þótti Þorsteinn því ekki hafa
lögvarða hagsmuni af því að vitnaleiðslan færi fram.