Fréttaskýring: Kynlíf og persónuárásir

Flestir þekkja samskiptavefinn Facebook. Færri kannast hins vegar við skyldan vef, Formspring, en sá nýtur töluverðra vinsælda meðal yngri netnotenda hér á landi. Sá gengur út á það að notendur skrá sig fyrir síðu, og svara svo spurningum sem aðrir geta sent þeim, iðulega nafnlaust. 

Harpa Rut Hilmarsdóttir, kennari við Austurbæjarskóla, segir að þó að margt jákvætt sé hægt að segja um Facebook eigi vefurinn líka sínar varhugaverðu hliðar. Formspring sé hins vegar í algjörum sérflokki.

Ekki þarf langrar skoðunar við til þess að rekast á samskipti barna og unglinga í efri bekkjum grunnskóla sem eru ýmist á kynferðislegum eða meiðandi nótum, í sumum tilfellum hvort tveggja. Samkvæmt notendaskilmálum Formspring þarf notandi að vera orðinn 13 ára til þess að geta skráð sig: Hins vegar er ekki gengið úr skugga um það að rétt fæðingardagsetning sé gefin upp við skráningu, og því sé hverjum sem er í raun í lófa lagið að skrá sig. Skráningarferlið tekur nokkrar sekúndur.

Allt annað en saklaust

„Þau spyrja allra spurninga sem þau geta ekki spurt augliti til auglitis, þannig að oftast er þetta allt annað en saklaust,“ segir Harpa. „En þetta eru ekki bara spurningar, heldur líka blammeringar. Þannig að ef þú ert með stórt nef, lítið typpi, einhverja fötlun eða jafnvel af erlendum uppruna, þá er skotið á það. Þú getur treyst á það. Allt það sem er undirliggjandi í huga barnanna kemur þarna upp á yfirborðið.“

Harpa segist í kjölfar skoðunar sinnar á samskiptaháttum barnanna hafa komist að þeirri niðurstöðu að þau eigi ekkert erindi á vefi eins og Formspring. „Ég hef mestar áhyggjur af því að þau eru að segja allt um sig og líf sitt. Þetta eru prívatmál og þetta eiga að vera prívatmál,“ segir hún.

UNGIR NETNOTENDUR

Farið fram

„Tölvunotkun er undir meira eftirliti en hún var, og börn virðast vera orðin meðvitaðri og ábyrgari á heildina litið,“ segir Hrefna Sigurjónsdóttir, verkefnastjóri hjá Heimili og skóla og SAFT, vakningarátaki um örugga tækninotkun barna og unglinga. Það valdi þó áhyggjum þegar upp komi síður eins og Formspring.

Kannanir hafa hins vegar sýnt að hegðun af þessu tagi sé undantekning frekar en hitt. Ungir netnotendur ræða í auknum mæli við foreldra sína um netnotkun sína, sannreyna frekar upplýsingar sem þeir afla á netinu og hitta síður fólk sem þeir þekkja einungis gegnum netið. Þá er algengara að foreldrar noti búnað sem lokar fyrir „óæskileg“ vefsvæði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert