Engar upplýsingar liggja fyrir um hvað olli því að Goðafoss, gámaflutningaskip Eimskips, strandaði í gærkvöldi. Litlar líkur er á að skipið hafi siglt hratt, að sögn Ólafs Williams Hand, forstöðumanns kynningar- og markaðsmála hjá Eimskip.
„Nú er verið að vinna í því að hefta að olíumengun verði meiri en þegar er orðið og að koma í veg fyrir að þetta verði að umhverfisslysi,“ sagði Ólafur á níunda tímanum í morgun. „En það er ekki vitað hversu mikill olíulekinn er, nú er tekið að birta þarna og þá sést það betur.“
„Það er verið að passa upp á að áhöfnin og þeir sem eru að vinna við björgunina séu að vinna við aðstæður sem eru ekki taldar hættulegar.“
Að sögn Ólafs vinnur áhöfnin að björguninni ásamt norsku strandgæslunni.
Enginn slasaðist við strandið og Ólafur segir að engir gámar hafi farið fyrir borð, en tæplega 500 gámar eru um borð í skipinu.
Þegar fregnir bárust af strandinu var ræst aðgerðaráætlun, sem unnin er frá stjórnstöð í Eimskipum. „Við höfum sent menn út og bíðum eftir upplýsingum,“sagði Ólafur.
Ólafur segir að þegar slík óhöpp gerast, þá er kölluð út óhappanefnd. Hennar hlutverk er að afla upplýsinga um stöðuna og hafa samband við þau yfirvöld sem að málinu koma. Það geta t.d. verið strandgæsla, björgunarsveitir eða tryggingafélög. Eftir að þeim upplýsingum hefur verið safnað er tekin ákvörðun í samráðið við fyrrgreinda aðila.
En hvað um tjón Eimskips? „Við erum ekkert að hugsa um tjón Eimskips í augnablikinu. Við lítum fyrst og fremst á þetta sem björgunaraðgerð. Við erum að gæta þess að hefta olíuleka og að menn séu ekki að vinna við hættuleg skilyrði,“sagði Ólafur.
Olíuvarnargirðing var sett upp í kringum skipið í nótt og aðrar girðingar eru tiltækar, sé þörf á þeim. Ólafur segir að slíkar girðingar dugi að öllu jöfnu mjög vel við að stemma stigu við olíuleka á sjó.