Goðafoss er sagður hafa siglt nokkuð hratt er hann strandaði í Óslóarfirði í gærkvöldi. Þetta kemur fram á vefsíðu dagblaðsins í Frederikstad í Noregi, f.b.no og þar segir að hraði skipsins hafði verið 13,5 hnútar.
Í fréttinni segir að þetta hafi komið fram í eftirlitskerfum gervihnatta. Skipið var á 7,2 hnúta hraða á meðan það var í fylgd hafnsögubáts, en þegar báturinn yfirgaf skipið var hraðinn aukinn verulega.
Fram kemur einnig, að hafnsögumaður hafi fylgt skipinu skemur en hefðbundið er en þegar skipstjórar þekki siglingaleiðina, eins og í þessu tilfelli, þá sé ekki óalgengt að hafnsögumenn hætti að fylgja skipum fyrr en ella. Tilkynnt sé um slíkt fyrirfram.