Fagna friðun Langasjós

Græna netið, félag jafnaðarmanna um náttúruna, umhverfið og framtíðina, fagnar friðlýsingu Langasjós sem er nú orðinn hluti af Vatnajökulsþjóðgarði ásamt hluta Eldgjár í Skaftártungu. „Þetta eru merk tíðindi í sögu náttúruverndar á Íslandi og efla enn stórfengleik og aðdráttarafl stærsta þjóðgarðs í Evrópu,“ segir í tilkynningu.

Langisjór er eitt tærasta fjallavatn á Íslandi. Það er í Vestur-Skaftafellssýslu og dregur nafn sitt af lengd sinni en það er 20 km langt og 2 km breitt.

Í tilkynningunni frá Græna netinu segir einnig: „Með því að friðlýsa Langasjó batt Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra enda á ráðagerðir um að eyðileggja vatnið með svokallaðri Skaftárveitu, en ekki er nema um hálfur áratugur síðan sú framkvæmd var á teikniborðum ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar. Þá hófst öflug barátta náttúruverndarafla fyrir friðlýsingu Langasjós, og má minna á að hann er meðal  náttúrusvæðanna sem nefnd eru sérstaklega í umhverfisstefnu Samfylkingarinnar, Fagra Íslandi.

Nú telja allir sem til þekkja að vatnið sé ein af helstu náttúruperlum landsins, enda er þar orðinn eftirsóttur ferðamannastaður. Má dæmi Langasjós verða stjórnvöldum til áminningar um að vanda til verka við ákvarðanir um orkuöflun og verndarnýtingu í náttúru Íslands.

Um leið og stjórn Græna netsins þakkar umhverfisráðherra og sveitarstjórnarmönnum í Skaftárhreppi þessa friðlýsingarframkvæmd og óskar þeim farsældar í stöfum leggur hún til að næsta stórverkefni í verndarnýtingu verði myndarleg stækkun friðlandsins í Þjórsárverum, sem bindi enda á öll áform um Norðlingaölduveitu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert