Ritstjórn Morgunblaðsins, fréttastofa RÚV og fréttastofa Stöðvar 2 fá sameiginlega tilnefningu í flokki bestu umfjöllunar ársins 2010 fyrir umfangsmikla og vandaða en ólíka umfjöllun um eldgosin á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli. Tilnefningar til Blaðamannaverðlauna B.Í. fyrir árið 2010 voru birtar á miðnætti.
Ásamt Morgunblaðinu, RÚV og Stöð 2 eru Magnús Halldórsson, blaðamaður á Viðskiptablaðinu, og Sigríður H. Björnsdóttir og Þóra Arnórsdóttir, ásamt fréttamönnum fréttastofu RÚV, tilnefnd í sama flokki.Magnús fyrir fyrir skýra og umfangsmikla umfjöllun um fjármál sveitarfélaga í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga en Sigríður, Þóra og fréttamenn RÚV fyrir sérstakan þátt með greinargóðri og viðamikilli umfjöllun um Rannsóknarskýrslu Alþingis daginn sem hún kom út.
Til blaðamannaverðlauna ársins 2010 fengu svo tilnefningu Pétur Blöndal, blaðamaður Morgunblaðsins, Kristinn Hrafnsson, RÚV/Wikileaks, og ristjórn DV.
Pétur er tilnefndur fyrir fyrir fróðlegar og sérstaklega vel skrifaðar greinar um læknavísindi sem gáfu bæði innsýn í aðstæður sjúklings og lækna/heilbrigðisstarfsfólks. Kristinn Hrafnsson hlýtur tilnefningu fyrir framúrskarandi úrvinnslu á myndbandi um þyrluárás í Bagdad, en einnig störf hans sem fulltrúi WikiLeaks í samstarfi við helstu fjölmiðla heims. Þá fær ritstjórn DV tilnefningu fyrir Stjórnlagaþingsvef sinn.
Í flokknum um rannsóknarblaðamennsku ársins eru tilefnd Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, blaðamaður DV, Stígur Helgason og Trausti Hafliðason, blaðamenn Fréttablaðsins, og Þorbjörn Þórðarson, fréttamaður Stöðvar 2.
Ingibjörg hlaut tilnefningu fyrir áleitna og vandaða umfjöllun um kynferðisbrotamál og forystu um skrif á þessu sviði, Stígur Og Trausti fyrir greinargóða og upplýsandi umfjöllun um málefni meðferðarheimilisins Árbótar og Þorbjörn fyrir skilmerkilegan fréttaflutning af viðskipta- og fjármálum.