Tugir erlendra sjúklinga koma hingað til lands í hverjum mánuði í ýmiskonar aðgerðir. Gjaldeyristekjur af þessum hópi nema nokkur hundruð milljónum króna á ári.
Þetta kom fram hjá Guðlaugi Þór Þórðarsyni, alþingismanni, á fundi um innflutning sjúklinga, sem Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir í dag.
Guðlaugur Þór sagði að um 60 sjúklingar kæmu hingað til lands í hverjum mánuði í augnaðgerðir og um 10 sjúklingar á mánuði í lýtaaðgerðir. Þessir sjúklingar væru flestir frá Færeyjum, Grænlandi og Noregi.
Guðlaugur Þór sagði, að meðaleyðsla hvers sjúklings, meðan á dvöl hans stendur hér á landi, sé á bilinu 300-800 þúsund krónur. Þá fylgi hverjum sjúklingi oftast 1-2 aðstandendur sem eyði á bilinu 160-300 þúsund krónum hér á landi. Því væru gjaldeyristekjur miðað við 70 sjúklinga á mánuði á bilinu 252–670 milljónir á ári
Guðlaugur Þór sagði, að einnig kæmu hingað tugir Færeyinga árlega á Landspítala í æðaaðgerðir og krabbameinsaðgerðir í tengslum við samning, sem spítalinn gerði við færeysk stjórnvöld í fyrra.
Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, sagði á fundinum að vaxandi eftirspurn væri í heiminum eftir ódýrri heilbrigðisþjónustu og upp á síðkastið hefðu menn ef til vill horft á Ísland vegna þess að gengi krónunnar væri hagstætt, hér væri gott heilbrigðiskerfi og hingað væri gott að koma.
Hann sagði nauðsynlegt að ganga fordómalaust til umræðunnar um innflutning sjúklinga og vega og meta þau álitaefni sem þar eru uppi. Hafa verði margt í huga og nefndi Guðbjartur m.a. að gengi krónunnar geti breyst, og hugsanlega verði búið að eyða eftirspurn, sem nú er eftir þjónustu af þessu tagi, eftir 1-2 áratugi vegna þess að önnur lönd hafa bætt eigin þjónustu.
Guðbjartur sagðist ekki hafa séð ástæðu til að setja lög til að stöðva þessa þróun. Það sé hins vegar ljóst, að ríkið muni ekki leggja þeim aðilum, sem hyggja á einkarekna heilbrigðisþjónustu fyrir útlendinga, til neitt nema að skapa þeim almennt umhverfi. Þessir aðilar verði að bera ábyrgðina sjálfir og gangi dæmið ekki upp eigi fyrirtækin að fara á hausinn án þess að ríkið beri af því kostnað.
Guðbjartur lagði áherslu á að hér mætti ekki myndast tvöfalt heilbrigðiskerfi þar sem Íslendingar, sem hafa ráð á því, geti keypt sér forgang. Guðlaugur Þór sagði að enginn hér á landi vildi sjá slíkt kerfi, en hætta væri á að það myndaðist ef framboð á almennri heilbrigðisþjónustu væri ekki nægilegt. Stóra markmiðið væri að halda uppi þjónustu í heilbrigðiskerfi og vera áfram í fremstu röð meðal þjóða á því sviði. Verði tækifærin ekki nýtt sé mikil hætta á að forskotið tapist og það mætti aldrei gerast.
Gunnar Ármannsson, framkvæmdastjóri Prima Care, sem er að undirbúa byggingu byggingu einkasjúkrahúss og hótels í Mosfellsbæ, sagði áætlað að fjárfesting í þessu verkefni næmi jafnvirði 17 milljarða króna. Þar gætu orðið til 600-1000 ný störf auk 250-300 starfa sem verða til á byggingartímanum. Þá væri gert ráð fyrir að 6-10 þúsund gestum árlega en sjúkrahúsið mun sérhæfa sig í mjaðmaliða- og hnjáaðgerðum fyrir útlendinga.
Gunnar og Guðlaugur Þór fögnuðu því báðir, að mun jákvæðari tónn heyrðist hjá velferðarráðherranum en þeim heilbrigðisráðherrum, sem verið hafa í embætti á undanförnum misserum. Gunnar sagði, að menn yrðu að hafa þrek og þor til að ræða um þessa hluti án þess að gefa sér niðurstöðuna fyrirfram.
Erla Gerður Sveinsdóttir, yfirlæknir á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði, sagði á fundinum að tækifærin varðandi innflutning sjúklinga væru mun fleiri en ógnirnar. Fram kom hjá henni, að stjórn stofnunarinnar hefur nú samþykkt að taka við tveimur sjúklingum frá endurhæfingu frá Norðurlöndunum.