Kristján B. Jónasson, formaður Félags bókaútgefenda, segir að bókaútgefendur telji að þeir tapi um 50 milljónum króna á gjaldþroti Máls og menningar við Laugaveg. Þeir hafi ekki fengið greitt fyrir seldar bækur í búðinni frá því fyrir jól og fái væntanlega ekki til baka óseldar bækur.
Kristján segir að bókaútgefendur beri sig mjög illa vegna gjaldþrotsins. Þeir megi ekki við neinum áföllum og því hafi svona skellur mjög alvarleg áhrif á stöðu þeirra auk þess sem hann dragi kjark úr mönnum. „Þetta er mjög mikil blóðtaka,“ segir hann. „Þetta er stærsta gjaldþrot í greininni og mjög mikið áfall. Helvítis högg.“
Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir Arndís B. Sigurgeirsdóttir, sem rekur bókaverslunina Iðu við Lækjargötu, að nánast öll bóksala nema hjá Iðu sé í eigu bankanna og því sé hún í samkeppni við mikið peningaveldi. Viðskiptavinirnir viti það og eins að samkeppnin stuðli að lægra verði. Fyrir vikið gangi mjög vel hjá henni.