Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir á heimasíðu sinni að hundrað þúsund króna mánaðarbónus handa dómurum sé viðurstyggileg móðgun við landsmenn.
„Lífið á Íslandi er svona: Það stendur yfir björgun samfélags og allir leggja meira á sig fyrir minna fé en áður. Þetta hefur þótt svo sjálfsagt að karlar og konur um allt land hafa ekki lagst í neina sérstaka meðaumkun; miklu fremur að hver og einn hafi þakkað fyrir að hafa þó vinnu …
Þjóðin hefur enda alltaf keyrt upp herðarnar á móti erfiðum aðstæðum - og tekið slaginn; við kyrr og kröpp kjörin. Ekki heimtað eitthvað umfram … ef öðrum þarf að bjarga. Þvílíkt og annað eins hefur alltaf verið sjálfboðið.
Hundrað þúsund króna mánaðarbónus handa dómurum, sem einmitt þessa dagana eru að taka á bónusvæðingu Íslands á síðustu árum, er viðurstyggileg móðgun við landsmenn. Ekkert minna …" segir Sigmundur Ernir á heimasíðunni.