Atkvæðagreiðslan verði sem fyrst

Oddvitar ríkisstjórnarinnar, Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra
Oddvitar ríkisstjórnarinnar, Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra mbl.is/Ernir

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði við Sjónvarpið nú síðdegis, að ákvörðun forseta Íslands valdi vonbrigðum en nú verði hafist handa við að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lögin.

Sagði Jóhanna að þjóðaratkvæðagreiðslan ætti að fara fram sem allra fyrst, hugsanlega eftir mánuð, og spurning væri hvort samhliða geti farið fram nýjar kosningar til stjórnlagaþings. 

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagðist vera sem þingmaður í 28 ár  forundrandi á ákvörðun forsetans. Ekki stæði hins vegar til að rjúfa þing og boða til nýrra kosninga vegna þessa. Jóhanna sagði, að aukinn meirihluti hefði staðfest frumvarpið á Alþingi og því kæmi niðurstaða forsetans mjög á óvart.

Steingrímur sagði, að áleitnasta spurningin, sem hljóti að vakna í öðrum löndum, sé hvort Ísland sé fært um að ná niðurstöðu í erfiðum málum. Sagðist Steingrímur gera ráð fyrir því að ríkisstjórnin verði í samráði við hollensk og bresk yfirvöld um framvindu málsins.

Boðað hefur verið til þingflokksfunda Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs síðdegis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert