Björn Valur: Icesave mál þingsins

Björn Valur Gíslason.
Björn Valur Gíslason.

Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, sagði í Silfri Egils í Sjónvarpinu í dag, að Icesave-málið sé orðið mál þingsins en ekki ríkisstjórnarinnar í ljósi þess að stjórnarandstaðan hefði komið að samningaviðræðum á síðasta ári og átt fulltrúa í samninganefndinni.   

Þegar Egill Helgason, stjórnandi þáttarins, spurði Björn Val hvað gerðist ef Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ákveður í dag að synja lögunum staðfestingar.

„Það getur ýmislegt gerst," sagði Björn Valur. „Auðvitað getur maður fabúlerað um ýmsa hluti. Í fyrsta lagi getur málið auðvitað farið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í öðru lagi geta þessir 44 þingmenn, þessi 70% þingheims, sem samþykktu málið, tekið það í sínar hendur, varið þingræðið, afturkallað þessi lög, myndað einhverskonar starfhæfa stjórn hér í landinu til að undirbúa kosningar, eftir sex mánuði eða svo, meðal annars til að endurskoða stjórnarskrána, ljúka þessu máli. Þetta er mál þingsins, ekki ríkisstjórnarinnar í dag. Þingið þarf að bregðast við, ekki ríkisstjórnin."  

Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að staða ríkisstjórnarinnar yrði óbærileg ef hún yrði gerð afturreka með þetta mál í þriðja skiptið. Þrátt fyrir aðkomu stjórnarandstöðunnar að samningaviðræðum við Breta og Hollendinga væri málið á ábyrgð ríkisstjórnarinnar.

Í þættinum sagði Björn Valur m.a., að Lilja Mósesdóttir, flokkssystir hans í VG, væri stjórnarandstæðingur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka