Breytt stjórnskipan Íslands

Reuters

Einar Mar Jónsson stjórnmálafræðingur segist telja afar erfitt að spá fyrir um hvernig þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave samningana gæti farið.  Að vissu leyti sé búið að breyta stjórnskipan landsins og hann segir ákvörðun forsetans hafa komið sér nokkuð á óvart.

„Margir höfðu spáð því að ríkisstjórnin myndi segja af sér, ef forsetinn staðfesti ekki lögin. En það virðist ekki ætla að gerast,“ segir Einar. „En það eru viðbrögð Hollendinga og Breta sem við þurfum að hafa áhyggjur af. Margir telja að þeir gætu dregið tilboð sitt til baka.“

„Að vissu leyti er búið að breyta stjórnskipan Íslands. Þó að þetta ákvæði hafi alltaf verið til staðar, þá er þetta í þriðja sinn sem núverandi forseti beitir því til þess að vísa lögum til þjóðarinnar. Þetta hlýtur að  þrýsta enn meira á breytingar á stjórnarskránni og að ný lög um þjóðaratkvæðagreiðslur verði sett.“

„Ég held að úr þessu sé enginn stjórnmálaflokkur neitt sérlega ánægður með þetta ákvæði, að forsetinn hafi þetta vald einn í hendi sér. Hann getur í rauninni vísað öllum lögum sem koma frá þinginu til þjóðarinnar,“ segir Einar.

„Þetta er ný tegund af löggjafarvaldi. Það má velta því fyrir sér hvers vegna hann vildi ekki staðfesta þessi lög. Til dæmis var fjárlagafrumvarpið mjög umdeilt og fór í gegn með færri atkvæðum á þingi en Icesave frumvarpið.“

Einar segir að synjunin geti hugsanlega aukið vinsældir Ólafs Ragnars meðal þjóðarinnar. „En aðalmálið er hvaða afleiðingar þetta hefur fyrir okkur sem þjóð. Núna er tvisvar búið að gera samninga sem njóta fulltingis ríkisstjórnar og þings, en svo getur forsetinn snúið því á haus.“

Í yfirlýsingu forsetans segir að þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram svo fljótt sem auðið er. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði í dag að hún gæti hugsanlega verið haldin eftir mánuð eða svo. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert