„Ég er fyllilega sáttur við þetta. Við greiddum atkvæði með því að þetta færi fyrir þjóðina,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, um þá ákvörðun forsetans um að hafna Icesave-lögnum staðfestingar.
„Það lá fyrir okkur á Alþingi að taka afstöðu til málsins eins og búið hafi verið um það. Ég komst að þeirri niðurstöðu að rétt væri að ljúka ágreiningi um Icesave-samningana með því að styðja þingmálið. Ég var líka þeirrar skoðunar að málið færi til þjóðarinnar vegna þess hvernig það var meðhöndlað á fyrri stigum,“ segir Bjarni.
Nú sé það niðurstaðan og það sé fyrir hvern og einn að taka afstöðu til málsins. Nema eitthvað óvænt komi upp á muni fara fram atkvæðagreiðsla og þá muni þurfa góða kynningu á málinu til að menn geti tekið upplýsta ákvörðun.