Óvissutímabil verður framlengt hér á landi ef Icesave-samningnum verður hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. Hann segist óttast að reikningurinn endi alltaf hjá þjóðinni.
„Við höfum nokkuð lengi talið skynsamlegast að semja sig frá þessu máli. Okkar áhyggjuefni hefur verið að þetta hefur tafið hér uppbyggingu og mun gera það áfram á meðan málið er ekki leyst. Það er ljóst að um þetta verður óvissa áfram. Það er ekkert annað að gera en að hraða þessari atkvæðagreiðslu,“ segir Gylfi.
Það hafi verið vitað mál frá því í fyrra að þessi staða gæti komið upp og það hafi að sumu leyti verið líkleg niðurstaða.
„Ef þessu verður hafnað eins og í fyrra þá er ljóst að við erum að framlengja óvissutímabilið um nokkurra ára skeið. Ég hygg að það sé engin endurkoma að samningaborði eftir þetta. Það er krafa þjóðarinnar að fara með þetta dómstólaleiðina. Sú leið hefur alltaf verið mörgum þyrnum stráð og algerlega óviss til hvaða niðurstöðu það muni leiða.“
Gylfi segir þá leið munu taka mjög langan tíma. „Á meðan hygg ég að það verði mikil óvissa um okkar mál. Öll töf á framgangi þessa vonda máls mun kosta okkur eitthvað. Sá reikningur tikkar bara. Ég held að því miður endi reikningurinn alltaf hjá þjóðinni, spurningin er bara um formið á honum.“