Ríkisstjórnin ekki undir

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra. Ómar Óskarsson

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, telur fráleitt að líf ríkisstjórnarinnar sé undir í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave. Þá segir hann engin rök fyrir því að Icesave og erfiðleikar við að landa því máli hafi áhrif á umsóknarferli Íslands að Evrópusambandinu.

Hvað viðkemur áhrifum ákvörðunar Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, að synja Icesave-lagafrumvarpinu staðfestingar á ríkisstjórnina segir Össur að fyrirhuguð þjóðaratkvæðagreiðsla snúi ekki að ríkisstjórninni og líftíma hennar. „Ástæðan er ekki síst sú að þessi samningsniðurstaða er allt öðruvísi en sú sem síðast var kynnt. Þá var hún borin fram af ríkisstjórninni einni en í dag er um að ræða niðurstöðu ferlis sem allir stjórnmálaflokkar komu að og stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn styður.“

Össur segist sammála því sem Lárus Blöndal, fulltrúi stjórnarandstöðunnar í samninganefndinni, sagði í samtali við fréttavef Morgunblaðsins fyrr í kvöld, þ.e. að best fari á því að þeir menn sem gerðu samninginn og hafa ekki pólitískra hagsmuna að gæta kynni samninginn fyrir þjóðinni. Hann segir þó ekki víst að það dugi til. „Af lífsreynslu minni leyfi ég mér að efast um að það sé af slíkum beinhörðum rökum sem allir munu taka afstöðu í þessu máli.“

Öll skip dregin á flot

Þegar Ólafur Ragnar synjaði lögunum staðfestingar í janúar 2010 fór utanríkisráðuneytið í mikla upplýsingaherferð gagnvart ríkisstjórnum annarra landa. Össur segir að ekki verði hjá því komist að fara nákvæmlega eins að í þetta skipið. „samskonar upplýsingaherferð gagnvart ríkisstjórnum annarra landa eins og síðast. Þetta var niðurstaða sem örugglega kemur mörgum á óvart, margir sem ekki skilja þetta ákvæði í stjórnarskrá okkar. Við munum draga öll skip á flot og senda alla sem vettlingi geta valdið á allra næstu dögum til að skýra þetta.“

Þegar talið berst að mögulegum áhrifum á umsóknarferli Íslands að Evrópusambandinu segir Össur að hann vildi helst leysa málið með samningum en hins vegar sé annar farvegur, þ.e. dómstólaleiðin. „Það er farvegur sem gert er ráð fyrir í regluverki Evrópusambandsins. Ef þetta mál fer í þann farveg sé ég ekki hvernig hægt er, með nokkrum skaplegum rökum, að halda því fram að sá ferill skaði umsóknarferil okkar. Það eru engin rök fyrir því,“ segir Össur og bætir við: „Þó ber að geta að á langri lífsreynslu veit ég, að heimurinn gengur ekki alltaf eftir skiljanlegum rökum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert