Allt bensín sem Olíuverzlun Íslands flytur til landsins fer í gegnum viðamikið rannsóknarferli, segir í yfirlýsingu frá félaginu vegna fréttar í Morgunblaðinu sl. laugardag þar sem fjallað var um gangtruflanir í bílum og hugsanleg tengsl við galla í bensíni.
Olís segir að eldsneyti fyrirtækisins sé rannsakað af óháðri rannsóknarstofu erlendis, þegar því er dælt í skip, og rannsakað við komu skips til landsins auk þess sem tekin séu sýni á bensínstöðvum félagsins og send í rannsókn.
„Allt það bensín sem félagið selur kemur frá Statoil í Noregi og stenst allar opinberar kröfur. Þá er eldsneyti félagsins dreift af gæðavottuðu fyrirtæki. Félagið hafnar alfarið fullyrðingu Leós M. Jónssonar véltæknifræðings um að flutt sé inn lélegra bensín en áður, enda á sú fullyrðing sér enga stoð í raunveruleikanum,“ segir í tilkynningu Olís.