Ljóst er að hafnsögumaðurinn, sem átti að fylgja Goðafossi úr höfn frá Fredrikstad í Noregi, fór fyrr frá borði en öruggt var. Gert er ráð fyrir því að hafsögumaður fari frá borði nokkrum sjómílum utar en hann gerði.
Aðeins um sex skipslengdum frá þeim stað þar sem lóðsinn yfirgaf Goðafoss, sigldi skipið í strand, þá innan þeirra marka sem hafnsögumaður á að vera viðstaddur.
Þetta kom fram á blaðamannafundi Eimskips fyrir stundu. Eimskip er ósátt við þær upplýsingar sem norska lögreglan hefur veitt fjölmiðlum þar í landi um rannsókn málsins. Lögreglan hefur meðal annars gefið það út að skipstjóri Goðafoss hafi játað mistök. Eimskip hefur ráðið norskan lögmann til aðstoðar vegna slyssins.
Goðafoss situr enn fastur, en unnið er að því að fækka gámum um borð í skipinu. Vonast er til þess að skipið verði fært af strandstað á miðvikudagsmorgun.