Óvíst með opnun Landeyjahafnar

Dýpkunarskipið Skandia býður átekta í Vestmannaeyjahöfn.
Dýpkunarskipið Skandia býður átekta í Vestmannaeyjahöfn.

Óvíst er að Landeyjahöfn verði fær næstu daga. Dýpkunarskipið getur ekki athafnað sig vegna öldu og spá um öldu viku fram í tímann bendir til að erfitt verði að vinna við dýpkun á næstunni.

Nokkuð var unnið við dýpkun fyrir helgi en vinnan lá niðri um helgina vegna veðurs.

Í dag er þriggja metra ölduhæð við Landeyjahöfn en dýpkunarskipið Skandia getur ekki athafnað sig ef aldan fer yfir tvo metra.

Skipið bíður átekta í Vestmannaeyjahöfn, samkvæmt upplýsingum Siglingastofnunar.

Útlit er fyrir að heldur minni alda verði á morgun en svo bæti aftur í. Þórhildur Elín Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Siglingastofnunar, segir hugsanlegt að skipið fari að Landeyjahöfn á morgun. Það ráðist þó af veðri.

Herjólfur hefur ekki siglt í Landeyjahöfn síðustu vikur og töluverðar frátafir hafa verið í allan vetur vegna aurburðar inn í höfnina.

Talið er að dregið hafi úr aurburði að undanförnu og að ekki sé mikið verk eftir við dýpkun, til að höfnin opnist.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert